Öðruvísi ferðir

Múltikúlti-ferðir bjóða upp á ferðir til Kenía, Tansaníu og Indlands í samvinnu við félögin Vini Kenía (og Tansaníu) og Vini Indlands. Markmiðið með ferðunum er að kynna og styðja við verkefni félaganna, en þátttakendur kynnist einnig landi og menningu ásamt því að njóta náttúru og afþreyingar sem þessi lönd bjóða upp á. Eins og annað starf Múltikúlti-félagasamtakanna og áðurnefndra félaga, er allt unnið í sjálfboðavinnu.

Í ferðum til Kenía og Tansaníu eru heimsótt þau verkefni sem verið er að styðja hverju sinni, eins og Little Bees skólann í Nairobi, vatnsverkefni í Tansaníu – heimsóttir skólar þar sem fyrirhugað er eða nýbúið er að byggja vatnstanka eða bora eftir vatni. Einnig verður kynnt kenísk, sjálfbær matargerðarlist, tónlist í Tansaníu, auk þess sem boðið verður upp á safaríferðir um Serengeti-þjóðgarðinn, og/eða fjallgöngu á Kilimanjaro, hæsta tind Afríku.

Siðrænar ferðir

Kjarni hugmyndafræði Múltíkúltí ferða er að gefa ferðalöngum jákvæða upplifun ásamt því að leggja eitthvað af mörkum til þeirra samfélaga sem við ferðumst til. Í ferðum Múltíkúltí ferða rennur ákveðinn hluti af verði ferðarinnar beint til þeirra staða og verkefna sem heimsótt verða í hverri ferð. Sem dæmi má nefna að ef farið er til Little Bees-skólans í Nairobi rennur fé í ýmislegt sem skólann vanhagar um og í þau verkefni sem eru mest aðkallandi hverju sinni.

Hluti af því að vera ábyrgur ferðalangur er að huga að umhverfinu. Múltíkúltí ferðum er annt um að gera sitt til þess að jafna út losun gróðurhúsalofttegunda sem sannarlega verður við ferðalög og vill jafna út losunina að hluta eða öllu leyti. Innifalið í verði ferðarinnar er ákveðin upphæð (6%) sem mun renna beint til verkefna sem stuðla að kolefnisjöfnun, til dæmis trjáræktar í samvinnu við samstarfsaðila okkar Nourish Africa. (https://nourishafrica.org/)

Í ferðum okkar sýnum við náttúru og manneskjum virðingu. Við tökum ekki né birtum myndir, nema með leyfi og styðjum einungis við verkefni þar sem jafnrétti í víðasta skilningi er virt.

  • Múltikúlti ehf. er sjálfboðaliðafélag sem var stofnað árið 2006 til þess að styðja við félögin Vinir Indlands og Vinir Kenía. Samkvæmt lögum þessara félaga fer allt fé sem þau safna óskert erlendis, en Múltikúlti hefur þá séð um kostnað og umsýslu á Íslandi sem tengist þeim. Árið 2006 keypti félagið húsnæði að Ingólfsstræti 8, þar sem rekið var kaffihús og seldir munir frá Indlandi og Kenía. Árið 2010 keypti félagið svo annað og stærra húsnæði að Barónsstíg og leigði út til íslenskukennslu, auk þess sem þar voru haldnir fjáröflunarkvöldverðir fyrir verkefni í Indlandi, Kenía og Tansaníu. Félagið stóð auk þess fyrir reglulegum ferðum ungra sjálfboðaliða til þessara landa. Árið 2021 seldi félagið húsnæðið við Barónsstíg og keypti annað stærra í Bolholti 6. Í dag er félagið í eigu 30 einstaklinga og er enn sem fyrr rekið í sjálfboðaliðamensku. Múltikúlti hefur gefið út tvær bækur: “Kölski á krossinum” (2009), eftir Ngugi wa Thiongo og “Horfin arfleifð” (2013), eftir Kiran Desai.

  • Vinir Kenía (og Tansaníu) var formlega stofnað í janúar 2006. Í gegnum tíðina hefur félagið stutt við margvísleg verkefni í Kenía og Tansaníu, í samvinnu við samtök á þessum stöðum. Þar má nefna fósturbarnaverkefni, þar sem munaðarlaus börn njóta stuðnings fólks á Íslandi, fræðsluverkefni um malaríu, stuðningur við Little Bees skólann í Nairobi, ýmis verkefni tengd vatnsöflun í Tansaníu, auk smálánastarfsemi. Tvö vatnsverkefnanna, vatnsborun við skóla í vesturhluta Tansaníu, hafa verið stutt af Utanríkisráðuneyti Íslands. Félagið hefur auk þess sent unga sjálfboðaliða til þessara landa til að vinna að ýmsum verkefnum í samvinnu við Múltikúlti.

    Vinir Kenía (og Tansaníu) er á Almannaheillaskrá

  • Félagið Vinir Indlands var stofnað haustið 2000 og hefur starfað að margs konar samvinnuverkefnum með félagasamtökum í Tamil Nadu á Suður-Indlandi.

    Verkefnin sem félagið hefur tekið þátt í eru m.a. styrkir til barna vegna skólagöngu í gegnum styrktarforeldrakerfi þar sem íslenskir styrktarforeldrar styrkja ákveðið barn, heimili eða skóla. Þá hefur félagið, í samvinnu við Múltikúlti, sent sjálfboðaliða til starfa við ýmis verkefni samstarfsaðila félagsins, tekið þátt í starfsþjálfun kvenna og barna sem bjargað hefur verið úr mansali, stutt fjárhagslega við fræðslumiðstöðvar í afskekktum þorpum og fleira. Um árabil hélt félagið styrktartónleika, þar sem margt af besta tónlistarfólki Íslands gaf vinnu sína til styrktar félaginu. Þá hefur félagið vakið athygli á indverskri menningu með menningarlegum viðburðum, þ.á.m. staðið fyrir tveimur indverskum kvikmyndahátíðum í Bíó Paradís.

    Verkefni Vina Indlands eru öll unnin í sjálfboðavinnu, bæði á Íslandi og Indlandi. Félagið leggur áherslu á að vinna í mikilli samvinnu við samtök á staðnum, ábyrgð á verkefnum hvíli á heimafólki. Félagið er fjármagnað af styrktaraðilum; einstaklingum og fyrirtækjum og styrktarsjóðum og rennur allt fé sem safnað er á Íslandi beint til verkefna.

    Nánari upplýsingar má finna á vinirindlands.is