Kenía - Tansanía, júní 2024
Ferðin hófst með flugi frá Íslandi til Naíróbí í Kenía þann 15. júní, þar sem gist var í þrjár nætur. Þar fór hópurinn á danssýningu og fékk sér kvöldverð, þar sem í boði voru als kyns framandi réttir. Þar fyrir utan gerði hópurinn ýmislegt sér til dundurs í Naíróbí, heimsótti Karen Blixen-safnið og fékk tíma í kenískum dansi í heimsókn hjá ungri kenískri hugsjónakonu, heimsótti National Museum, fór á Masaí-markað, heimsótti gíraffagarð og naut útsýnisins frá TV-Tower. Að lokum var Little Bees-skólann í Mathare-hverfinu heimsóttur, en þar höfðu verið mikil flóð skömmu áður og starfsemi skólans, sem Vinir Kenía á Íslandi hafa stutt í áratugi, í talsverðu uppnámi.
Síðan var ekið sem leið lá yfir landamærin til Arusha í Tansaníu og gist eina nótt, áður en flogið var til Mwanza-borgar, við strönd Viktoríuvatnsins.
Í Mwanza var gist á Hotel Tilapia í þrjár nætur. Þar var m.a. farið í heimsókn í starfsþjálfunarmiðstöð samstarfsaðila Vina Kenía og Tansaníu, þar sem mörg úr hópnum pöntuðu sér afrískar skyrtur og kjóla, sem nemendur miðstöðvarinnar saumuðu og færðu hópnum næsta dag. Þar á eftir hélt hluti hópsins áfram og heimsótti annan skóla þar sem verið var að byggja nýja salernisaðstöðu sem hópurinn greiddi fyrir og svo er einnig fyrirhugað að bora þar eftir vatni á næsta ári. Daginn eftir var farið í heimsókn í skóla þar sem skoðað var trjáræktarverkefni sem hópurinn studdi. Í skólanum var tekið á móti hópnum með trumbuslætti og dansi.
Að morgni fjórða dags komu þrír safarí-jeppar og sóttu hópinn í 4 daga safarí um Serengeti- og Ngorongoro-þjóðgarðana, og endað í Ngorongoro-gígnum, þar sem finna má þúsundir dýra. Í safarí-ferðinni var gist í tjöldum og “lodge”, sem var mikil upplifun fyrir þátttakendur.
Eftir einnar nætur gistingu í Arusha var svo flogið til Sansibar þar sem hópurinn slakaði á við ströndina, fór í bátsferð, ásamt því að skoða fjölbreytt mannlífið í Stone Town, fara á kryddmarkað o.fl.
Þann 29. júní var svo flogið af stað aftur heim.
Hluti ferðakostnaðar rann til verkefna í Kenía og Tansaníu og skiptist eftirfarandi:
Heildarinnkoma: 1.205.000 kr.
Trjáræktarverkefni*: -281.095 kr.
Little Bees-skólinn: -190.821 kr.
Salerni við Mwaliga Primary School: -488.860 kr.
Til vatnsborunarverkefnis 2025**: -244.224 kr.
*Verkefnið var unnið í samvinnu við Nourish Africa og nemendur í þremur skólum, Mawa Matatu Secondary School (sem var heimsóttur), Mwabebea Secondary School og Ntende Secondary School, þar sem gróðursett voru tré við skólana. Verkefnið fól líka í sér fræðslu til nemenda um loftslagsbreytingar og trjárækt, auk þess sem nokkrir nemendur voru gerðir ábyrgir fyrir að hlúa að trjánum og halda þeim á lífi.
**Fyrirhugað er að bora eftir vatni við Mwaliga Primary School í upphafi næsta árs.